Bistro Boy – Sólheimar

Bistro Boy - Sólheimar

Bistro Boy - Sólheimar

Bistro merkir, samkvæmt sinni upprunalegri frönsku merkinu, lítið veitingahús, sem hefur uppá að bjóða ódýran og góðan mat í hóflegu umhverfi. Stuttskífan Sólheimar er fyrsta útgáfa raftónlistarmanninn Bistro Boy, sem var skírður Frosti Jónsson af foreldrum sínum snemma á áttunda áratugnum. Þó svo skilgreiningin á listamannanafninu bendi til þess að um er að ræða viðráðanlega tónlist í hóflegu umhverfi er tónlistarsköpunin sjálf rándýr, ljúffeng og vel borin fram. Uppruni orðsins Bistro er talinn vera kominn úr rússnesku, en orðið Bystro merkir þar fljótlegt, en það er lítið sem ekkert fljótlegt við tónlist Bistro Boy, þar sem hljóðasamsetningarnar og uppbyggingin er öguð og fáguð. Frosti hefur verið að gera tónlist í mörg ár, en er nú loksins að koma út úr skápnum með sitt fyrsta verk. Stuttskífan er í raun persónulegt ferðalag listamannsins sem lýsir sér best í setningunni “tónlist án landamæra” og inniheldur sex prýðileg sveimkennd heiladansverk. Stuttskífan er fáanleg fyrir einungis 5,49 evrur, sem eru einungis 893 isk samkvæmt núverandi gengi. Tónjöfnun er í höndunum á hinu dularfulla Smurfen. Bistroboy mun fylgja á eftir stuttskífunni með útgáfutónleikum, sem fram fara 14. júní í Nýlenduverslun Hemma og Valda.

Þetta er ellefta útgáfa Möller Records og önnur stuttskífan sem þar kemur út á einni og sömu vikunni. Ekki skal þó einhver halda því fram að magn komi fram yfir gæði, því það er ei raunin þar sem gæðastuðullinn er stjarnfræðilega hár. Ávallt má búast við gæðaraftónlist frá þeim Möller-bræðrum. Til að útmá smá misskilning sem ríkir á alnetinu og hvarmskinnu þá er það tekið fram að Möller Records er skýrt til heiður Helgu Möller, söngkonu og listakokk, en ekki til heiðurs Kristjáns L. Möller, fyrrverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.


Hlekkir

Bistro Boy – Sólheimar á Möller Records

Bistro Boy á hljóðskýinu

Bistro Boy á hvarmskinnu

Möller Records á hvarmskinnu

 

 


css.php