Risaeðlan #13: Trabant – Moment of Truth

Í nóvember árið 2001 kom út breiðskífan Moment of Truth með hljómsveitinni Trabant. Breiðskífa þessa var lengi í fæðingu, en orðrómur var um að meðlimir sveitarinnar, Viðar H. Gíslason og Þorvaldur Gröndal, hafi leigt sér skrifstofuhúsnæði á Suðurlandsbraut þann tíma sem breiðskífan var í vinnslu og að sjaldan hefur ein sveit söðlað undir sig jafnmarga stúdíótíma. Margir óttuðust ákveðið “Brian Wilson-Syndrome” hjá meðlimunum, en útkoman var allt annað en ofhlaðin geðveiki – því að um var að ræða eitt af meistaraverkum íslenskrar popptónlistar.

Hljómsveitin Trabant hét til að byrja með Traktor, en báðir meðlimir sveitarinnar voru þá meðlimir í pönksveitinni Unun. Þorvaldur hafði áður fyrr spilað með sveitum á borð við California Nestbox, Ó. Jónsson og Grjóni, Kanada, Funerals og Orgelkvartettinum Apparat. Hann var einnig í hljómsveitinni Múzzólíni sem tók þátt í Rykkrokk árið 1987. Viðar hóf feril sinn með Púff, en kom einnig við sögu hjá Quarashi og Slowblow.

Þorvaldur Gröndal (t.v.) og Viðar Hákon Gíslason (t.h.)

Þorvaldur Gröndal (t.v.) og Viðar Hákon Gíslason (t.h.)

Upphaflega átti breiðskífan þeirra að koma út á vegum Smekkleysu, en ekki náðist sátt um eitt ákvæði í samningnum. Thule útgáfan tók því á móti tvíeykinu með opnum örmum og gaf þeim frjálsar hendur. Eftir u.þ.b “10.000 bolla af kaffi og 500 karton af sígarettum” var breiðskífan tilbúin. Gefin var út stuttskífa með laginu Enter Spacebar, en á henni var að finna endurhljóðblandanir eftir Einóma, Thor, Ilo, Q Burns Abstract Message og þýsku 8-bita brjálæðingunum í Bodenstanding 2000, sem skömmu áður höfðu gefið út hina stórkostlegu partýplötu Maxi German Rave Blast Hits 3 á Rephlex útgáfunni. Myndbandið við lagið Enter Spacebar innihélt stiklur úr kynningu á hollenskri verksmiðju sem Hollywood-risinn Paul Verhoeven hafði leikstýrt í upphafi ferilsins. Ekki er þó hægt að finna myndbandið á Youtube né Vimeo og auglýsum við hér með eftir því. Smáskífan fékk prýðisdóma og var t.a.m. smáskífa mánaðarins hjá breska tímaritinu Music Magazine. Blaðamenn New York Times héldu ekki vatni yfir sveitinni eftir að hafa séð þá á Iceland Airwaves hátíðinni og taldi þá vera eina af þeim áhugaverðustu sveitum sem þeir sáu þar. Reynt var að finna samlíkingar við hina ýmsu listamenn, t.a.m. Stereolab, Air og Jimi Tenor – en þó voru flestir á því að hér væri eitthvað nýtt á ferðinni.

Eins og áður kom fram, þá kom breiðskífan sjálf út í lok nóvember árið 2001. Erlendir miðlar voru flestir sammála um gæði hennar. Sumir töldu jafnvel um að hér væri um að ræða tímamótaverk, en hið fyrrnefnda Musik Magazine líkti henni við frumraun Pink Floyd, Piper at the Gates of Dawn, sem kom út árið 1967. Trabant er “besta rafræna framtíðarfönksveitin dagsins í dag” var m.a. skrifað í þriggja blaðsíðna umfjöllun tímaritsins. Á Íslandi vakti hún einnig verðskuldaða athygli. Hún var m.a. í 2.-3. sæti DV yfir bestu breiðskífu ársins – jafn Vespertine með Björk á stigum. Þess má geta að besta breiðskífa þess árs að mati gagnrýnenda var XXX Rottweilerhundar.

Þeim til aðstoðar á breiðskífunni voru m.a. Hlynur Aðils Vilmarsson (Strigaskór nr. 42), Ó. Jónsson, Egill Sæbjörnsson, Ragnar Kjartansson, Finnur Björnsson, Ragnheiður Eiríksdóttir,  Samúel J. Samúelsson, Ylfa Mist og Einar S.H. Þórhallur Skúlason, eigandi Thule útgáfunnar, sá um viðbótarforritun. Ragnar og Hlynur Aðils áttu síðar meir eftir að verða fullgildir meðlimir sveitarinnar, ásamt Gísla Galdri.

Til að kynna breiðskífuna enn frekar var gefið út 7″ vínyl- og geisladiskaútgáfa af laginu Superman – lag sem fjallar um óendurgoldna ást einstaklings á ofurhetju. Á geisladiskaútgáfunni var að finna afar skemmtilegar endurhljóðblandanir eftir Ozy og Worm is Green. Þar leyndist einnig lagið Maria, sem kom út síðar í öðruvísi útgáfu á breiðskífunni Emotional. 

Velgengni Moment of Truth vakti áhuga hjá ýmsum stórum útgáfufyrirtækjum. Orðrómur var um að samningur við stórfyrirtækið Parlophone lægi á borðinu, en á endanum var samið við Southern Fried Records – en það fyrirtæki er í eigu Norman Cook, sem er betur þekktur sem Fatboy Slim. Úr varð breiðskífan Emotional og fékk glimmrandi móttökur gagnrýnenda. BBC hrósaði fingrafimi Gísla Galdurs á plötuspilaranum og taldi sveitina hafa fram á að bjóða svakalegustu bassalínur síðan Bootsy Collins var og hét. Ekki verður hér fjallað um velgengni þeirrar breiðskífu, en það er efni í aðra grein. Það virðist svo að Trabant hafi lagt upp lauparnar, en meðlimir sveitarinnar hafa í mörg horn að snúast þessa daganna. Hljómsveitir koma og fara, en tónsmíðarnar lifa að eilífu.


css.php